Myrkradansarinn / Dancer in the Dark

Í liðinni viku datt mér í hug í miðjum verkefnaskrifum að athuga hvort það væri eitthvað áhugavert í bíó. Ég fletti því upp dönsku síðunni Kino og fór að skoða! Mér til mikillar ánægju sá ég að ég myndi ná sýningu á Myrkradansaranum (Dancer in the Dark) það kvöldið í Cinemateket, kvikmyndahúsi sem rekið er af Det Danske Filminstitut.

Ég hafði aldrei séð myndina en að sjálfsögðu heyrt af henni. Útgáfa hennar var jú enn eitt skiptið sem Björk Guðmundsdóttir fyllti Íslendingshjartað stolti enda lék hún bæði aðalhlutverkið og samdi tónlistina! Ekki bara það, því myndin sló í gegn á Cannes þar sem Björk vann verðlaun fyrir leik og Lars von Trier hlaut Gyllta Pálmann. Svo var Björk líka tilnefnd til Golden Globe fyrir leik og til Óskarsverðlaunanna og Golden Globe (ásamt Lars von Trier og Sjón) fyrir lagið ‘I’ve seen it all’.

En það er þó ekki eina ástæðan fyrir því að ég þekkti til myndarinnar því í upphafi meistaranámsins í CBS fengum við að heyra sögu um samstarf Bjarkar og Lars von Trier, leikstjóra myndarinnar. Þó ég viti lítið um sannleiksgildi sögunnar birtist hún einnig í bók um líf og störf Lars von Trier, sem kom út árið 2010, svo ætla má að eitthvað sé til í henni. Frásögninni í einum af fyrstu tímunum í meistaranáminu var þá ætlað að gefa okkur hugmynd um hversu erfitt það getur verið að vinna með skapandi fólki og ekki síst frægum primadonnum (eins og kennarinn orðaði það) enda endar sagan þannig að eftir þrjá daga í röð þar sem Björk aflýsti komu sinni í tökur, af því hún “var ekki í stuði til að leika” (skv. von Trier), ákvað Lars að aflýsa tökum á fjórða deginum til að hefna sín. Sú ákvörðun á að hafa kostað framleiðsluna um 800 þúsund danskar krónur eða um 8 milljónir íslenskar krónur (á þeim tíma). Hafandi unnið með Björk á Biophilia túrnum á ég að vísu erfitt með að trúa að um slíka prímadonnustæla hafi verið að ræða og satt best að segja hefur hlið Bjarkar aldrei komið fram. En það er allavega ljóst að samstarfið hékk á bláþræði og hefur ekki verið endurtekið síðan.

En að máli málanna, myndinni sjálfri. Áður hafði ég séð eina frá Lars von Trier, Hálfvitana. Eins hef ég lesið þó nokkuð um von Trier, samstarf hans við Peter Aalbæk Jensen og framleiðslufyrirtækið Zentropa í tengslum við námið, svo ég vissi nokkurn veginn við hverju mátti búast.

Myrkradansarinn fylgir að einhverju leyti reglum Dogme 95 stefnunnar en þó ekki öllum og telst hún því ekki Dogme mynd. Myndin fylgir eftir Selmu (Björk), ungri konu frá Tékkóslóvakíu sem komin er til Bandaríkjanna ásamt syni sínum í von um betra líf. Bandaríkin er þó ekki eins og hún hafði átt von á og því á Selma erfiðara uppdráttar en hún hafði búist við. Myndin er hjartnæm og veitir áhorfendum innsýn í líf Selmu, bæði það góða og það slæma. Ég hló, grét, fagnaði og reiddist á þessum tveimur tímum sem myndin varði og var í raun ótrúlega snortin eftir áhorfið!

Svo er það tónlistin. Selma á nefnilega til að detta inn í dagdrauma þar sem hún notar takt og hljóð í umhverfi sínu til að búa til lag. Tónlist spilar því mikilvægt hlutverk í myndinni en er þó eingöngu til staðar þegar Selmu byrjar að dreyma. Engin tónlist, tilfallandi eða annarskonar, fylgir öðrum atriðum en dagdraumum Selmu. Að mínu mati skapaði þetta ákveðið mótvægi og gerði tónlistina ennþá áhrifaríkari. Eins var það á vissan hátt mjög áhrifaríkt að hafa enga tilfallandi tónlist, eða innskotstónlist, sem í flestum kvikmyndum er notuð í bakgrunni til að skapa eða viðhalda ákveðinni stemmingu.

Myrkradansarinn fékk mig því enn og aftur til að hugsa um áhrif tónlistar í kvikmyndum. Þá pældi ég í því hvort tónlistarleysið í Myrkradansaranum hefði sömu áhrif á mig ef ekki værir fyrir þá staðreynd að í flestum kvikmyndum er tónlist einmitt notuð til að upphefja myndina.Í flestum myndum er áhorfandinn á einhvern hátt leiddur í gegnum atburðarás með tilfallandi tónlist. Okkur er sagt hvenær við eigum að vera spennt, hrædd eða sorgmædd, taugarnar eru kitlaðar fram að því þegar morðinginn birtist í herberginu. Tónlist hefur með öðrum orðum mikil áhrif á upplifun okkar af því sem fram fer á skjánum, eins og sjá má í myndbandi hér að neðan.

 

Ég mun líklega halda áfram að velta mér upp úr þessum hlutum næstu mánuði og ár. Eftir að ég hóf rannsóknarvinnuna fyrir meistaraverkefnið mitt er þetta í huga mér í hvert skipti sem ég horfi á kvikmyndir og sjónvarpsþætti og mismunandi tónlist og aðferðir kveikja hjá mér fleiri hugmyndir og pælingar. Það er því líklegt að bloggin um kvikmyndatónlist verði fleiri.

 

Comments

Leave a comment