Ég er komin heim! Og ekki bara í viku eða tíu daga í þetta skiptið. Ég er flutt heim!
Síðasta laugardag var kveðjupartí mér til heiðurs í Kaupmannahöfn. Nánustu vinirnir höfðu planað kvöldið og ég átti bara að mæta á veitingastaðinn klukkan 19. Kvöldið var frábært! Góður matur og góður félagsskapur en auðvitað blendar tilfinningar að vera að yfirgefa Kaupmannahöfn og allt þetta góða fólk.
Sunnudaginn 7. ágúst hélt ég svo af stað út á Kastrup með fjórar ferðatöskur, stóran pappakassa og handfarangurstösku með í för. Sem betur fer gat ég fengið vini mína í Kaupmannahöfn til að fylgja mér út á völl með allt þetta hafurtask og á Leifstöð tóku Óli bróðir og mamma á móti mér.
Síðan þá hef ég svo verið að snúast í skráningar- og atvinnumálum en auðvitað hef ég einnig fundið tíma til að sjá afa og ömmur, bræður og börn og svo tókst mér á þessum fjórum dögum sem liðnir eru að fara í báða fjölskyldusumarbústaðina, Hrafnabjörg og Mosgerði. Annar þeirra er í eigu föðurfjölskyldunnar og hinn í eigu móðurfjölskyldunnar en ég eyddi dágóðum tíma í báðum á mínum yngri árum. Síðustu fimm ár hef ég þó ekki getað verið þar neitt svakalega mikið og því voru þetta ákaflega kærar heimsóknir!

Næst á dagskrá er allsherjar atvinnuleit. Ég er komin hægt og rólega af stað en framundan eru eflaust óteljandi tölvupóstar, umsóknir, símtöl og vonandi nokkur viðtöl. Ég er á þessum “skemmtilega” stað í starfsferli mínum að vera vel menntuð en með litla reynslu úr atvinnulífinu. Það þýðir að þó að ég sé vel í stakk búin til að takast á við ýmiskonar störf er ég að vissu leyti áhættumeiri ráðning en þeir reynslumeiri þar sem það mun líklega taka mig svolitla stund að umbreyta menntun í framkvæmd. Ég vil samt meina að hver sá sem á endanum tekur sénsinn á mér muni alls ekki sjá eftir því þar sem að ég hef mikla og góða þekkingu sem mun nýtast vel í starfi. Svo er ég auðvitað líka metnaðargjörn og tilbúin að takast á við allskonar verkefni og störf, svo lengi sem ég get lært eitthvað af þeim!
Allavega er ferilskráin nú uppfærð og skjal sem útskýrir hvernig menntun og fyrri störf hafa gert mig að góðum starfskrafti fyrir verkefnavinnu í skapandi greinum er í bígerð. Það skjal mun örugglega rata hingað inn þegar það er tilbúið en í bili held ég ótrauð áfram að skoða atvinnuauglýsingar mörgum sinnum á dag!

Leave a comment