Category: Danmörk

  • Hvað er erfiðast við að stunda nám erlendis?

    Hvað er erfiðast við að stunda nám erlendis?

    Fyrr í ár svaraði ég í annað skiptið spurningu ókunnugs notenda á spurningavefnum Quora. Spurningin varðaði erfiðleika þess að vera í námi erlendis og vegna reynslu minnar af viðfangsefninu lá það beint fyrir mér að svara. Í ljósi þess að eftir rúma viku liggur leiðin heim til Íslands eftir fimm ár í námi erlendis hefur þessi spurning enn og aftur legið mér á hjarta undanfarnar vikur og því fannst mér tilvalið að skoða hana hér áður en að flutningunum kemur.

    Einhverjir kannast eflaust við spurningavefinn Quora en fyrir þá sem ekki gera það kemur hér stutt kynning. Quora er sem sagt vefsíða þar sem milljónir notenda koma saman til að spyrja og svara spurningum um allt milli himins og jarðar. Að einhverju leyti má segja að Quora sé sambland af Wikipedia, Google og Reddit. Ef þú hefur spurningu sem ekki má finna svarið við með Google-leit er hægt að smella sér inn á Quora og spyrja þar. Að öllum líkindum mun annar notandi reyna að svara spurningunni en svarið getur verið allt frá einu orði yfir í nokkurra blaðsíðna ritgerð. Quora snýst sem sagt um að gefa notendum tækifæri á að spyrja spurninga og/eða nýta þekkingu sína til að svara spurningum frá öðrum notendum, frá öllum heimshornum um allskonar viðfangsefni.

    quora

    Á síðasta ári bjó ég mér til aðgang að þessari forlátu síðu en í upphafi notaði ég hana lítið sem ekkert. Eftir því sem á leið fór ég þó að skoða meira og meira og loks fyllti ég út persónlegan prófíl, þar sem meðal annars kom fram hverju mér finndist ég hafa næga þekkingu á til að svara spurningum annarra notenda. Þá leið ekki á löngu þar til ég fékk skilaboð þess efnis að spurning hefði borist sem mögulegt væri að ég gæti svarað. Spurningin hljóðaði svo: “What is the hardest thing about being a foreign student abroad?” og stuttu seinna barst önnur: “What is the most difficult thing while studying abroad?” Sem sagt, hvað er erfiðast við að vera vera í námi erlendis?

    Ég ákvað að svara þessum spurningum því það vill svo til að ég hef heldur marktæka reynslu af námi erlendis og því ýmis svör við þessari spurningu. Það sem mér fannst erfiðast við að svara var að það er svo margt við þetta sem fer eftir aðstæðum. Svarið mitt má lesa hér en vegna þess að viðfangsefnið er mér svo mikilvægt og af því að nú þegar nær dregur flutningum er þetta ofarlega í huga, ákvað ég að endurtaka svarið í aðeins persónulegri pistli hér fyrir neðan.

    Að vera í námi erlendis getur þýtt svo margt. Til að mynda er hægt aðfara til útlanda á ýmsum stigum náms (menntaskóli, grunnnám, framhaldsnám) og eins er hægt að fara í fullt nám og/eða skiptinám erlendis.

    Ævintýraþorstinn í mér kviknaði að vissu leyti þegar ég fékk í fyrsta skipti kynningu frá skiptinemasamtökunum AFS um möguleikann á því að fara í skiptinám í framhaldsskóla. Ég man ekki hvort það var í Lindaskóla eða í Versló að ég fékk þessa kynningu en ég man vel eftir eftirvæntingunni þegar ég hafði sannfært mömmu um hugmyndina og sent umsókn til AFS um að fá að dvelja í ár í Ekvador! Draumurinn varð að veruleika og án þess að tala orð í spænsku hélt ég af stað áleiðis til Guayaquil þar sem ég kynntist gjörólíkri menningu, lærði tungumál frá grunni og upplifði margt og mikið sem ég annars ekki hefði gert. Ég var heppin með fósturfjölskyldu og eignaðist við þetta ævintýri fjölskyldu og vini sem skipta mig miklu máli í dag. En það sem mér enn í dag finnst eiginlega ótrúlegast er hversu mikið skiptinemaárið mótaði mig og hafði áhrif á árin sem koma skyldu.

    10399661_60013426824_8716_n
    Á flugvellinum í Guayaquil í ágúst 2007, þar sem ég hitti fósturfjölskylduna í fyrsta skipti.

    Ári eftir að ég kláraði Versló lá leiðin nefnilega til Kaupmannahafnar þar sem ég hef meira og minna búið síðan, eða í um 5 ár. Ég hóf grunnnám við Copenhagen Business School, fór í skiptinám til Spánar í eina önn, kom til baka til Kaupmannahafnar, lauk grunnnámi, hóf meistaranám við CBS, fór í skiptinám til Ítalíu, starfsnám til Englands og svo aftur til Kaupmannhafnar. Við öll þessi ferðalög og flutninga lærði ég margt um sjálfa mig og fólkið í kringum mig, um mikilvægi þess að geta verið sjálfum sér nógur og um erfiðleikana sem geta fylgt því að stunda nám erlendis á þessum þremur stigum menntunar og aldurs.

    Og hvað er þá erfiðast við að vera í námi erlendis? Óháð menntastigi og lengd dvalar er svarið mitt fyrst og fremst tengt fólki. Að hitta fólk, kynnast fólki, tungumálaörðugleikar í samskiptum við fólk, að tala við fólk með mismunandi bakgrunn og skoðanir, eignast vini, missa vini og að sakna fólks. Ég hef staðið sjálfa mig að því að hringja í aðstandendur án ástæðu eða umræðuefnis, bara til að heyra röddina í þeim. Ég hef keypt flugmiða heim með dags fyrirvara, því ég einfaldlega gat ekki meira og mig vantaði fólkið mitt. Ég hef misst af afmælum, skírnum, brúðkaupum, jarðaförum og allskonar samkomum vegna þess að ég var í öðru landi og gat ekki komið. Ég hef ekki tölu á skiptunum sem mér hefur liðið eins og ég sé að missa af einhverju, verið með samviskubit af því ég komst í afmæli hjá þessum og ekki hinum eða liðið eins og ég sé að missa vináttur og tengsl vegna þess að ég bý í öðru landi.

    En aðrir þættir geta þó líka reynst erfiðir

    1. Menningaráfall og að tala ekki tungumálið. Enska er ekki mikið töluð í Ekvador (eða var það allavega ekki 2007). Þar af leiðandi gat ég átt lítil sem engin munnleg samskipti við meirihluta vina og aðstandenda fyrstu mánuðina í Ekvador. Ég leit líka ansi öðruvísi út en margir af þeim og skildi ekki alltaf þeirra hugsunarhátt. Ég var mjög lánsöm að lenda hjá yndislegri fósturfjölskyldu sem studdi mig og hjálpaði til við spænskunámið og við að venja mig við lífið í Ekvador en að sama skapi leið mér allan tímann örlítið utanveltu.
    2. Óvænt menningaráfall og að venjast “daglegu lífi” erlendis. Þar sem ég var bara að fara til Danmerkur bjóst ég ekki við öðru menningaráfalli en eftir því sem tíminn leið fór ég að taka eftir fleiri og fleiri smáatriðum sem eru ólík milli Dana og Íslendinga. Í upphafi var þetta þó allt spennandi og gaman, ég var nýflutt að heiman alla leið til útlanda og réð mér algjörlega sjálf. En svo allt í einu varð þetta bara orðið lífið og ég komin með mínar daglegu rútínur. Ljóminn við að búa erlendis byrjaði að dofna og lífið hélt áfram sinn vanagang, bara án fjölskyldunnar og vinanna sem urðu eftir á Íslandi.
    3. Að kynnast ekki fólki. Áður en ég fór í skiptinámið til Valencia höfðum ég og sambýliskonur mínar þrjár ákveðið að halda okkur frá hinum skiptinemunum því okkur langaði að kynnast heimamönnum og menningu þeirra. Þetta reyndist ansi erfitt því Spánverjarnir í skólanum lifðu bara sínu lífi og höfðu takmarkaðan áhuga á að leggja tíma og fyrirhöfn í að kynnast fólki sem var hvort eð er farið eftir fjóra mánuði. Svo að í staðinn enduðum við að miklu leiti án samskipta við bæði heimamenn og aðra skiptinema.
    4. Svo er það þetta með að fara aftur heim. Þegar þetta er allt búið er komið að heimför og það þýðir jú kveðjustund. Eftir mislukkaða planið í Valencia fór ég til Mílanó með annað hugarfar. Þar ætlaði ég að kynnast skiptinemum og gera sem allra mest úr því sem við áttum sameiginlegt. Ég endaði í hópi sem samanstóð að mestu leyti af öðrum Norðurlandabúum. Við hugsum og högum okkur á svipaðan hátt og vildum öll gera sem mest úr dvölinni á Ítalíu. Skemmta okkur, fara í ferðalög, og fleira. Það var allt frábært. Þar til að var búið.
    12390851_10153321534133693_167017390665612837_n
    Síðasta kvöldmáltíðin í Mílanó með Skandínavíska vinahópnum

    Nú er aftur komið að kveðjustund. Á sama tíma og ég er rosalega spennt fyrir Íslandi er ótrúlega erfitt að kveðja Kaupmannahöfn. Að búa aftur á Íslandi þýðir meiri umgengni við fjölskylduna mína og gamla og góða vini en það þýðir líka minni umgengni við nýja og kæra vini. Að flytja til Íslands þýðir að ég tala tungumálið reiprennandi og að ég þekki betur til vissra þátta í viðskipta- og mannlífinu. En það þýðir líka að ég þekki verr til annarra þátta og á tímum getur það leitt til erfiðleika með að tjá mig um nám og fyrri störf, þar sem ég er vön að gera það á ensku. Síðustu fimm ár hafa verið frábær. Lærningsrík, skemmtileg, spennandi og óvænt. Ég hef kynnst yndislegu fólki, borgum og menningum, lært margt og mikið og öðlast reynslu sem mun fylgja mér til æviloka. Ég er líka betri, öruggari og skilningsríkari einstaklingur fyrir vikið en þrátt fyrir allt þetta hef ég efast um ákvörðunina sem ég tók fyrir 10 árum þegar umsóknarferlið fyrir skiptinám með AFS hófst. Ég hef líka efast um ákvörðunina sem ég tók þegar ég hélt til Kaupmannhafnar í háskólanám. Ég hef misst vini og tengsl. Ég hef misst af mikilvægum samkomum og viðburðum. Ég hef misst af uppvexti bræðrabarnanna minna sem eru allt í einu öll orðin hálf fullorðin. Ég hef misst af kveðjustundum við fráfallna ættingja og vini og svo mörgu öðru.

    Þetta er tilfinning sem enginn nema þeir sem hafa prófað geta skilið. Ég get ekki útskýrt hana. Á sama tíma og ég er þakklát fyrir tækifærin sem mér hafa gefist og fólkið sem ég hef kynnst er ég leið yfir tækifærunum og fólkinu sem ég hef misst af því að ég flutti út. Tengslanetið mitt er til að mynda minna og dreifðara en ef ég hefði búið á Íslandi og því gæti reynst mér flóknara að finna vinnu við hæfi. En fyrst og fremst er ég ánægð að ég lét verða af þessu, ánægð að ég hafði kjarkinn og styrkinn til að flytja fyrst til Danmerkur og svo til Spánar, Ítalíu og Englands. Ég er þakklát fyrir útkomuna sem allar þessar litlu ákvarðanir leiddu til og fyrir fólkið sem hefur verið hluti af ferðinni. Ég er líka gríðarlega stolt af þeim árangri sem ég hef náð og reynslunni sem ég hef sankað að mér. Ég hlakka mjög mikið til að flytja til Íslands, að búa nálægt fólkinu þar sem ég elska og hef saknað í fimm ár. Ég á auðvitað eftir að sakna Kaupmannahafnar en sem betur fer er ekki svo langt að fara, svo heimsóknirnar verða vonandi reglulegar.

    055
    Yndisleg ferð til Bornholm sem ég fór með danska vinahópnum sumarið 2015

    Ég er allavega tilbúin í næsta kafla. Búsetu og vonandi áhugaverða vinnu á Íslandinu mínu. Ferðalög um Ísland, sumarbústaðaferðir, útilegur, ís, útisundlaugar, (alvöru) lakkrís, lambakjöt, harðfiskur, ýsa, þorrablót, bolludagur, sprengidagur, 17. júní, 1. desember, alvöru snjór, ömurlegt veður, íslenskar sumarnætur, kórstelpurnar, bræðrabörnin, bræðurnir, mágkonurnar, afar og ömmur, mamma, stórfjölskylda, vinir, íslensk tunga og allt hitt.

    Landið okkar hefur upp á svo margt að bjóða og ég get ekki beðið eftir að upplifa allt sem ég hef saknað og uppgötva nýtt! Ísland, við sjáumst 7. ágúst!

     

  • Þrívíddarprentun

    Þrívíddarprentun

    Þrívíddarprentun er sjúklega spennandi fyrirbæri! Fyrir tveimur árum hefði ég líklega ekki litið tvisvar hefði ég rekist á frétt eða annað tengt tækninni en nú hef ég unnið í tengslum við hana í rúmlega eitt og hálft ár og þekki orðið ágætlega til!

    Það var í september 2014 að ég rakst á auglýsingu frá 3D Printhuset, sem þá var vinna að opnun á sýningarsal og verslun með þrívíddarprentara og þjónustu í Kaupmannahöfn. Þeir voru að leita að starfsnemum í ýmis hlutverk og vegna samtals sem ég hafði átt við Pál bróður minn tveimur mánuðum áður ákvað ég að skella mér í að senda inn umsókn! Páll er (eða var að minnsta kosti) nefnilega alveg á því að þrívíddarprentun sé framtíðin og hafði verið að hvetja litlu systur til að kynna sér bransann. Ef ekki hefði verið fyrir þetta samtal hefði ég mögulega litið framhjá auglýsingunni og því orðið af þessu frábæra tækifæri.

    Ekki leið á löngu frá því að umsóknin fór af stað þar til ég fékk símtal frá forstjóranum sem boðaði mig í viðtal viku seinna! Ég fékk giggið og 1. nóvember mætti ég ásamt fjórum öðrum nýráðnum starfnemum á Sølvtorvet í miðbæ Köben þar sem nýopnaðan sýningarsal 3D Printhuset var að finna. Þar sem ekkert okkar vissi neitt um þrívíddarprentun var okkar fyrsta verk að sitja kynningu frá einum af stjórnarmeðlimum um þróun tækninar fram að þessu og helstu vörur og þjónustu sem við myndum bjóða upp á. Hér að neðan er kynningarmyndand frá 3D Printhuset, að vísu á dönsku en það má sjá sýningarsalinn og fleira skemmtilegt.

    Síðan þá hef ég lært ótal margt um þrívíddarprentun og þá kannski helst hvað þróunin er gríðarlega hröð! Þrívíddarprentun er ekki eins ný af nálinni og margir gætu haldið en tæknin var fyrst þróuð í upphafi 8. áratugarins. Einkaleyfin sem þá voru veitt runnu hinsvegar mörg út í kringum 2013 og 2014 og þá fyrst fór boltinn almennilega að rúlla! Á þessum 2-3 árum sem liðin eru hafa framboð, gæði, verð og aðgengi að tækninni þotið áfram og í dag er hægt að kaupa tiltölulega góða og notendavæna þrívíddaprentara á um 60 þúsund krónur (da Vinci JR. 1.0 á DKK 3.195)! Svo eru minni og enn aðgengilegri vörur eins og þrívíddarpenninn 3Doodler einnig í boði fyrir þá sem hafa áhuga á að föndra eða jafnvel búa til skartgripi eða minni prótótípur með höndunum.

    Hér er frekar sætt myndband sem sýnir hversu auðvelt það er að nota da Vinci Jr. þrívíddarprentarann.

    Og annað sem sýnir hvað er hægt að gera með 3Doodler þrívíddarpennanum.

    Stuttu eftir opnun 3D Printhuset varð að veruleika stofnun systurfyrirtækisins 3D Print Scandinavia sem er dreifingaraðili á þrívíddarprenturum og aukahlutum í gjörvallri Skandinavíu. Starf mitt sem starfsnemi og síðar ‘studentermedhjælper’fól í sér vinnu bæði fyrir 3D Printhuset við blogg og almenn skrifstofustörf og fyrir 3D Print Scandinavia við uppsetningu og viðhald heimasíðu, reikningagerð og viðhald á ýmsum gagnagrunnum. Þegar ég svo flutti aftur til Kaupmannahafnar eftir dvölina í Mílanó og Cambridge var ég búin að semja við forstjórann að fá að hefja aftur störf hjá þeim, í þetta skiptir eingöngu hjá 3D Print Scandinavia. Því má segja að ég hafi fengið að fylgjast með útbreiðslu tækninnar á Norðurlöndum alveg frá upphafi og ég hef séð markaðinn þróast hratt og mikið.

    Ég hef lært ótrúlega mikið af störfum mínum hjá 3D Printhuset og 3D Print Scandinavia. Auðvitað hef ég lært sitthvað um tæknina sjálfa, þróun hennar síðustu ár og þróun markaðarins á Norðurlöndum. En þar að auki er starfsnámið og hlutastarfið hjá frumkvöðlafyrirtæki af þessu kaliberi einnig ómetanlegt þegar kemur að reynslunni sem ég hef fengið og verkefnunum sem ég hef unnið að. Til að mynda voru mín fyrstu verk sem starfsnemi að blogga um þrívíddarprentun á dönsku. Ég þekkti ekki tæknina og danskan var ekki svo góð að ég gæti skrifað langa texta án mikillar fyrirhafnar. Þó tókst mér með hjálp Google og góðra samstarfsmanna að skrifa um málefni eins og möguleikana við þrívíddarprentun í grunnskólum, möguleika og ógn þrívíddarprentunar fyrir hugverkaréttindi og notkun plastefnis við prentun á t.d. leikföngum og mataráhöldum. Auk dönsku og frekari þekkingar á tækninni, lærði ég við þetta mikið um textagerð, framsetningu efnis á netinu og notkun á WordPress.

    Eftir að 3D Print Scandinavia (3DPS) var stofnað fékk ég svo það hlutverk að setja upp heimasíðuna þeirra í samstarfi við samstarfsmann minn. Þá lærði ég auðvitað mjög mikið um notkun WordPress en einnig margt um textagerð og vörulýsingar, bæði fyrir B2B og B2C viðskipti. Svo þegar 3DPS hóf starfsemi voru mér falin hlutverk á borð við reikningagerð, viðhald gangagrunna og fleira. Við það lærði ég að reikna verð, framlegð og virðisaukaskatt og eins kann ég nú á netbókhaldsforritið E-conomic. Svo hef ég öðlast reynslu af samskiptum við birgja og endursöluaðila og kann orðið vel að halda mörgum verkefnum gangandi á sama tíma.

    Ég er ótrúlega þakklátt fyrir tækifærin hjá 3DPH og 3DPS og fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt í starfi. Það vill líka svo vel til að þakklætið er gagnkvæmt og ég get fullyrt að starf mitt hjá 3D Printhuset og 3D Print Scandinavia er mikils metið. Við samtal okkar um síðustu vikurnar mínar hjá 3DPS nefndi yfirmaðurinn minn að eiginleikar á borð við sjálfstæð vinnubrögð, skil verkefna af háum gæðum og á umsömdum tímum, sem og óvandlæti við val á verkefnum hefði gert mig að mjög góðum starfskrafti sem er auðvelt og ánægjulegt væri að vinna með.

    Þar sem stefnan er tekin á Ísland eftir útskrift mun ég vinna minn síðasta vinnudag hjá 3D Print Scandinavia í næstu viku. Það verður óneitanlega svolítið erfitt að kveðja 3D Printhuset og allt frábæra fólkið sem vinnur þar en ég mun þó án efa fylgjast með gangi mála hjá þeim sem og þróun markaðarins á Íslandi!

  • Myrkradansarinn / Dancer in the Dark

    Myrkradansarinn / Dancer in the Dark

    Í liðinni viku datt mér í hug í miðjum verkefnaskrifum að athuga hvort það væri eitthvað áhugavert í bíó. Ég fletti því upp dönsku síðunni Kino og fór að skoða! Mér til mikillar ánægju sá ég að ég myndi ná sýningu á Myrkradansaranum (Dancer in the Dark) það kvöldið í Cinemateket, kvikmyndahúsi sem rekið er af Det Danske Filminstitut.

    Ég hafði aldrei séð myndina en að sjálfsögðu heyrt af henni. Útgáfa hennar var jú enn eitt skiptið sem Björk Guðmundsdóttir fyllti Íslendingshjartað stolti enda lék hún bæði aðalhlutverkið og samdi tónlistina! Ekki bara það, því myndin sló í gegn á Cannes þar sem Björk vann verðlaun fyrir leik og Lars von Trier hlaut Gyllta Pálmann. Svo var Björk líka tilnefnd til Golden Globe fyrir leik og til Óskarsverðlaunanna og Golden Globe (ásamt Lars von Trier og Sjón) fyrir lagið ‘I’ve seen it all’.

    En það er þó ekki eina ástæðan fyrir því að ég þekkti til myndarinnar því í upphafi meistaranámsins í CBS fengum við að heyra sögu um samstarf Bjarkar og Lars von Trier, leikstjóra myndarinnar. Þó ég viti lítið um sannleiksgildi sögunnar birtist hún einnig í bók um líf og störf Lars von Trier, sem kom út árið 2010, svo ætla má að eitthvað sé til í henni. Frásögninni í einum af fyrstu tímunum í meistaranáminu var þá ætlað að gefa okkur hugmynd um hversu erfitt það getur verið að vinna með skapandi fólki og ekki síst frægum primadonnum (eins og kennarinn orðaði það) enda endar sagan þannig að eftir þrjá daga í röð þar sem Björk aflýsti komu sinni í tökur, af því hún “var ekki í stuði til að leika” (skv. von Trier), ákvað Lars að aflýsa tökum á fjórða deginum til að hefna sín. Sú ákvörðun á að hafa kostað framleiðsluna um 800 þúsund danskar krónur eða um 8 milljónir íslenskar krónur (á þeim tíma). Hafandi unnið með Björk á Biophilia túrnum á ég að vísu erfitt með að trúa að um slíka prímadonnustæla hafi verið að ræða og satt best að segja hefur hlið Bjarkar aldrei komið fram. En það er allavega ljóst að samstarfið hékk á bláþræði og hefur ekki verið endurtekið síðan.

    En að máli málanna, myndinni sjálfri. Áður hafði ég séð eina frá Lars von Trier, Hálfvitana. Eins hef ég lesið þó nokkuð um von Trier, samstarf hans við Peter Aalbæk Jensen og framleiðslufyrirtækið Zentropa í tengslum við námið, svo ég vissi nokkurn veginn við hverju mátti búast.

    Myrkradansarinn fylgir að einhverju leyti reglum Dogme 95 stefnunnar en þó ekki öllum og telst hún því ekki Dogme mynd. Myndin fylgir eftir Selmu (Björk), ungri konu frá Tékkóslóvakíu sem komin er til Bandaríkjanna ásamt syni sínum í von um betra líf. Bandaríkin er þó ekki eins og hún hafði átt von á og því á Selma erfiðara uppdráttar en hún hafði búist við. Myndin er hjartnæm og veitir áhorfendum innsýn í líf Selmu, bæði það góða og það slæma. Ég hló, grét, fagnaði og reiddist á þessum tveimur tímum sem myndin varði og var í raun ótrúlega snortin eftir áhorfið!

    Svo er það tónlistin. Selma á nefnilega til að detta inn í dagdrauma þar sem hún notar takt og hljóð í umhverfi sínu til að búa til lag. Tónlist spilar því mikilvægt hlutverk í myndinni en er þó eingöngu til staðar þegar Selmu byrjar að dreyma. Engin tónlist, tilfallandi eða annarskonar, fylgir öðrum atriðum en dagdraumum Selmu. Að mínu mati skapaði þetta ákveðið mótvægi og gerði tónlistina ennþá áhrifaríkari. Eins var það á vissan hátt mjög áhrifaríkt að hafa enga tilfallandi tónlist, eða innskotstónlist, sem í flestum kvikmyndum er notuð í bakgrunni til að skapa eða viðhalda ákveðinni stemmingu.

    Myrkradansarinn fékk mig því enn og aftur til að hugsa um áhrif tónlistar í kvikmyndum. Þá pældi ég í því hvort tónlistarleysið í Myrkradansaranum hefði sömu áhrif á mig ef ekki værir fyrir þá staðreynd að í flestum kvikmyndum er tónlist einmitt notuð til að upphefja myndina.Í flestum myndum er áhorfandinn á einhvern hátt leiddur í gegnum atburðarás með tilfallandi tónlist. Okkur er sagt hvenær við eigum að vera spennt, hrædd eða sorgmædd, taugarnar eru kitlaðar fram að því þegar morðinginn birtist í herberginu. Tónlist hefur með öðrum orðum mikil áhrif á upplifun okkar af því sem fram fer á skjánum, eins og sjá má í myndbandi hér að neðan.

     

    Ég mun líklega halda áfram að velta mér upp úr þessum hlutum næstu mánuði og ár. Eftir að ég hóf rannsóknarvinnuna fyrir meistaraverkefnið mitt er þetta í huga mér í hvert skipti sem ég horfi á kvikmyndir og sjónvarpsþætti og mismunandi tónlist og aðferðir kveikja hjá mér fleiri hugmyndir og pælingar. Það er því líklegt að bloggin um kvikmyndatónlist verði fleiri.