Category: Ísland

  • Fundur Fólksins

    Fundur Fólksins

    Síðastliðna helgi var Fundur Fólksins haldinn í annað skipti í Norræna Húsinu. Þarna komu saman stofnanir, samtök, stjórnmálamenn og almenningur til að ræða hin ýmsu mál. Áhugamálum mínum samkvæmt einbeitti ég mér að umræðum um mál listamanna á Íslandi í dag. Fyrir mig sem einskonar nýbúa hér á landi var þetta kærkomið tækifæri til að kynna sér lista- og menningarmál á Íslandi á þennan einfalda hátt. Bandalag íslenskra listamanna stóð að öllum viðburðum varðandi þessi mál og eiga samtökin mikið lof skilið fyrir góðar og upplýsandi umræður!

    Umræðurnar voru af ólíkum toga og komu meðal annars að sýnleika lista á Íslandi í dag og samspili við aðra þætti, t.d. varðandi ferðaþjónustu og fjölmiðla. Einnig var rætt um listamenn sem aðila vinnumarkaðarins, kassettugjaldið og aðrar leiðir til að listamenn fái greitt fyrir sín störf. Þá var talað um hvernig má lifa af listinni og komið inn á menningarstefnu stjórnmálaflokkanna sem hyggjast bjóða sig fram í komandi Alþingiskosningum.

    Umræðurnar voru hvor annarri áhugaverðari og erfitt er að segja til um hvað mér fannst skemmtilegast eða áhrifamest. En allt kom þetta í raun að því hvernig er að hafa atvinnu af listsköpun á Íslandi í dag. Af öllu að dæma skipa menning og listir stóran sess í íslensku samfélagi en eins og fram kom í umræðum um “Samfélag á lista?” er erfitt að ímynda sér að fara í gegnum lífið án þess að upplifa menningu og listsköpun, bæði íslenska og erlenda. Hægt er að sjá upptökur frá einhverjum umræðum á Vísi.is, m.a. um Kassettugjaldið og Lifað af listinni.

    Ég vona að stjórnvöld sjái að sér á næstu misserum og hlusti betur á það sem BÍL og önnur hagsmunasamtök listamanna hafa til málanna að leggja. Allir fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem sóttu fundinn sögðust hafa áhuga á að sjá mál listamanna á Íslandi bætt en samræðurnar hafa engu að síður verið í gangi síðastliðin nokkur ár án þess að þeim fylgi breytingar.

    Ég stefni á að hitta Kolbrúnu Halldórsdóttur, forseta BÍL, í næstu viku til að afla mér frekari upplýsinga um störf BÍL og fá hugmyndir um hvernig ég get lagt þessu mikilvæga málefni lið!

     

     

     

  • Ferðaþjónustan á Íslandi

    Ferðaþjónustan á Íslandi

    Síðustu vikuna hef ég lesið tvær mjög áhugaverðar greinar um ferðamannaþjónustuna á Íslandi. Almenningur virðist hafa skiptar skoðanir á því hversu jákvætt eða neikvætt það er að í ár sé áætlað að 1,7 milljónir túrista sæki Ísland heim en þegar öllu er á botninn hvolft er þó óhætt að segja að um mikilvægar gjaldeyristekjur og atvinnuveg sé að ræða. Ég flakka sjálf aðeins á milli þess að sjá góða og slæma vinkla við þessa gríðarlegu aukningu en ofar öllu vil ég ekki að náttúran og samfélagið líði fyrir hana, hvorki nú né á næstu öld.

    Fyrri greinin sem ég las var eftir Dr. Gunna og bar hinn kaldhæðna titil “Bloody tourists!” en hún hugaði að þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa á íslensku menningarlífi með komu túristasprengjunnar. Þegar ég las þessa grein stóð ég sjálfa mig að því að kinka kolli í sífellu og hugsa “já, já, vá ég var ekki búin að hugsa út í þetta … nei, já, frábært …. vá þetta er góður punktur” og svo framvegis …. Gunni benti réttilega á að við þurfum að passa okkur á að byggja ekki endalaus hótel og gististaði um allt land sem standa svo auð þegar túristarnir hætta að koma, rétt eins og gömlu góðu síldarverksmiðjurnar gera í dag. Að vísu bætir hann við að vissulega séu nokkrar þessara verksmiðja í notkun í dag, ekki fyrir síldarverkun heldur sem áhugaverðir staðir eða menningarsetur fyrir túrista að sjá og heyra um.

    Á Hjalteyri hefur verksmiðjan breyst í sýningarstað fyrir samtímalist (Mynd frá Land og Saga)

    Það sem mér fannst þó enn áhugaverðra var sú þróun sem hefur átt sér stað í Reykjavík á síðustu árum, sem Gunni vill að miklu leyti þakka fjölgun túrista í borginni. Þar nefnir hann meðal annars meira úrval af veitingastöðum, fleiri viðburðir og meira líf í miðbænum á virkum dögum og kvöldum, ekki bara túristar heldur fleiri Íslendingar þar sem það er hreinlega meira að gerast og sjá! Þessu hef ég fengið að kynnast frá fyrstu hendi á síðustu vikum. Ég hef eytt talsverðum tíma á kaffihúsum í miðbænum með tölvuna með í för, þar sem það getur orðið ansi leiðinlegt til lengdar að standa í atvinnuleit og hanga bara heima. Það iðar allt af lífi í bænum. Allstaðar er fólk, Laugavegurinn er göngugata, það eru fleiri kaffihús, betra kaffi, fjölbreyttari matur, og meira að gerast. Ég hef ekki við að skipuleggja dagskrána þar sem mig langar að sjá og prófa svo margt!

    En það er ekki bara miðbær Reykjavíkur sem hefur breyst til hins betra. Úthverfin verða sífellt vinsælli hjá ferðamönnum sem vilja upplifa annað en miðbæinn, og litlir kjarnar eru að rísa víða á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni er svo einnig uppbygging í ferðamennsku, hótelrekstri, menningarviðburðum og fleiru. Auðvitað er þetta ekki allt túrsmanum að þakka en ég er hjartanlega sammála Dr. Gunna um að ferðaþjónustan hafi haft mikið um hraða þróunarinnar að segja!

    En aftur að tómu síldarverksmiðjunum. Hin greinin sem ég las var fréttaskýring á Kjarnanum eftir Magnús Halldórsson, blaðamann. Hún ber titilinn “Getur ferðaþjónustan lent í vandræðum? Já, hún getur gert það.” Eins og titillinn ber með sér fjallar Magnús þar um hvað gæti orðið til þess að ferðaþjónustan á Íslandi lendi í vandræðum. Þar nefnir hann þrjár meginástæður:

    1. Styrking krónunnar
    2. Náttúruhamfarir
    3. Of hraður vöxtur

    Allt eru þetta gildar ástæður, og ástæður sem að vissu leyti er erfitt að stýra. Þó hægt sé að hafa einhver áhrif á gengi krónunnar er eðlilegt að hún styrkist með íslenska hagkerfinu og við auknar gjaldeyristekjur. Náttúruhamfarir höfum við ekkert um að segja og eins og hefur verið í fréttum nýverið er það víst bara tímaspursmál hvenær Kötlugos verður (svo er að vísu spurning hvort tímaspursmál eigi við um 2 eða 20 ár eða jafnvel meira). Og eins og EYE-a-fyat-la-yo-kutl-gosið hér um árið gaf vísbendingu um geta stór gos stoppað loftumferð bæði hér heima og erlendis. Og ef ekki er hægt að fljúga hingað er jú lítið annað til ráða. Ég held þó að um tímabilsástand væri að ræða og túristarnir muni koma til baka, því í kjölfar Eyjafjallajökulsgosins varð áhugi útlendinga á Íslandi ekki minni, og örugglega frekar meiri.

    Þriðju ástæðuna tengir Magnús við of hraðan vöxt rekstraraðila í greininni og þar með auknar gjaldeyristekjur og gengi krónunnar:

    Of hraður vöxtur getur valdið því, að geng­i krón­unnar styrk­ist of hratt, og á því tapa all­ir. Á þetta minnt­ist Gylfi Zoega, ­pró­fessor í hag­fræði og nefnd­ar­maður í pen­inga­stefnu­nefnd Seðla­banka Íslands,  á fundi efna­hags- og við­skipta­nefndar í dag. Hann sagði það grafa undan ferða­þjón­ust­unni, að allir aðilar í grein­inni væru að vaxa hratt á sama tíma, þar sem það skap­aði mikið gjald­eyr­is­inn­streymi sem síðan væri að grafa undan gengi krón­unn­ar. (Kjarninn)

    Ég tel þó að þessi hraði vöxtur geti haft áhrif á margt annað en gengu krónunnar og veit að ég er ekki ein um þá hugsun, langt í frá. Húsnæðismál í Reykjavík, íslenska náttúran og vegirnir eru dæmi um hluti sem hafa þurft að gjalda fyrir milljón plús túrista á ári! Og stjórnvöld hafa ekki getað haldið í við fjölgun ferðamanna með umbótum á því sem þarf. Hægt og rólega er verið að byggja upp sumt af því en sífellt er að bætast í fréttir af ágangi og umgengi ferðamanna um allt land og skort á hinu og þessu. Það þarf peninga og vilja stjórnvalda til að passa upp á landið okkar, samfélag og náttúru og það er alveg eðlilegt að ferðamenn greiði fyrir aðgang að ýmsum svæðum og minjum og jafnvel fyrir það eitt að koma til landsins.

    Tourists-Iceland.jpg.653x0_q80_crop-smart(Photo: Luc Van Braekel/flickr)

    Ég veit að þetta hefur verið í umræðunni en þetta hefur verið í umræðunni allt of lengi til að ekki sé komin nein niðurstaða í málið. Möguleikarnir eru fyrir hendi: skattur á flugferðir til Íslands, skattur á gistinætur, náttúrupassi sem gildir að þessu og hinu sem sjá má á landinu, vegaskattur á bílaleigubíla eða skattur í hópferðir, og svo framvegis. Það mun alltaf vera einhver sem er ósáttur og alltaf einhver sem finnst svindlað á sér. En þetta tíðkast á ýmsum stöðum í heiminum og aldrei munu auka 5000 krónur á mann stoppa einhvern sem á annað borð er að koma til Íslands í frí. Ég get auðvitað skilið að sem Íslendingur búsettur erlendis væri það frekar ömurlegt að þurfa að borga túristaskatt í hvert skipti sem flogið er heim en ég trúi ekki öðru en hægt væri að koma til móts við það á einhvern hátt. Já eða nýta hinar aðferðirnar. Ég veit til dæmis að í Mílanó er greiddur gistiskattur á hótelum en ef að gesturinn er búsettur/skráður í Mílanó er viðkomandi undanþeginn skattinum. Lausnirnar eru þarna og vonandi er einhver að vinna í því að innleiða þær “as we speak.”

    Hvernig sem það fæst þarf allavega fjármagn og það þarf skýra stefnu um hvernig á að taka á málunum svo að ekki verði úr túristasprengjunni hálfónýt náttúra sem komandi kynslóðir sitja uppi með. Ekki bara vegna þess að náttúran er helsta aðdráttarafl okkar fyrir ferðamenn, heldur vegna þessa að við Íslendingar erum stolt þjóð, stolt af náttúrunni og arfleiðinni og við viljum ekki fara í sögubækurnar sem þjóðin sem missti stjórn á ferðamannaiðnaðinum og tapaði landinu fyrir skjótan gróða og hraða uppbyggingu á kostnað framtíðarinnar.

    Höfuðið upp úr sandinum. Þetta reddast ekki nema á því verði tekið!

     

     

  • Ísland, góða Ísland!

    Ísland, góða Ísland!

    Ég er komin heim! Og ekki bara í viku eða tíu daga í þetta skiptið. Ég er flutt heim!

    Síðasta laugardag var kveðjupartí mér til heiðurs í Kaupmannahöfn. Nánustu vinirnir höfðu planað kvöldið og ég átti bara að mæta á veitingastaðinn klukkan 19. Kvöldið var frábært! Góður matur og góður félagsskapur en auðvitað blendar tilfinningar að vera að yfirgefa Kaupmannahöfn og allt þetta góða fólk.

    Sunnudaginn 7. ágúst hélt ég svo af stað út á Kastrup með fjórar ferðatöskur, stóran pappakassa og handfarangurstösku með í för. Sem betur fer gat ég fengið vini mína í Kaupmannahöfn til að fylgja mér út á völl með allt þetta hafurtask og á Leifstöð tóku Óli bróðir og mamma á móti mér.

    Síðan þá hef ég svo verið að snúast í skráningar- og atvinnumálum en auðvitað hef ég einnig fundið tíma til að sjá afa og ömmur, bræður og börn og svo tókst mér á þessum fjórum dögum sem liðnir eru að fara í báða fjölskyldusumarbústaðina, Hrafnabjörg og Mosgerði. Annar þeirra er í eigu föðurfjölskyldunnar og hinn í eigu móðurfjölskyldunnar en ég eyddi dágóðum tíma í báðum á mínum yngri árum. Síðustu fimm ár hef ég þó ekki getað verið þar neitt svakalega mikið og því voru þetta ákaflega kærar heimsóknir!

    20160808_205939
    Heimir frændi fyrir ofan Hrafnabjörg. Yndislegt útsýni yfir Silungatjörn.

    Næst á dagskrá er allsherjar atvinnuleit. Ég er komin hægt og rólega af stað en framundan eru eflaust óteljandi tölvupóstar, umsóknir, símtöl og vonandi nokkur viðtöl. Ég er á þessum “skemmtilega” stað í starfsferli mínum að vera vel menntuð en með litla reynslu úr atvinnulífinu. Það þýðir að þó að ég sé vel í stakk búin til að takast á við ýmiskonar störf er ég að vissu leyti áhættumeiri ráðning en þeir reynslumeiri þar sem það mun líklega taka mig svolitla stund að umbreyta menntun í framkvæmd. Ég vil samt meina að hver sá sem á endanum tekur sénsinn á mér muni alls ekki sjá eftir því þar sem að ég hef mikla og góða þekkingu sem mun nýtast vel í starfi. Svo er ég auðvitað líka metnaðargjörn og tilbúin að takast á við allskonar verkefni og störf, svo lengi sem ég get lært eitthvað af þeim!

    Allavega er ferilskráin nú uppfærð og skjal sem útskýrir hvernig menntun og fyrri störf hafa gert mig að góðum starfskrafti fyrir verkefnavinnu í skapandi greinum er í bígerð. Það skjal mun örugglega rata hingað inn þegar það er tilbúið en í bili held ég ótrauð áfram að skoða atvinnuauglýsingar mörgum sinnum á dag!

     

  • Hvað er erfiðast við að stunda nám erlendis?

    Hvað er erfiðast við að stunda nám erlendis?

    Fyrr í ár svaraði ég í annað skiptið spurningu ókunnugs notenda á spurningavefnum Quora. Spurningin varðaði erfiðleika þess að vera í námi erlendis og vegna reynslu minnar af viðfangsefninu lá það beint fyrir mér að svara. Í ljósi þess að eftir rúma viku liggur leiðin heim til Íslands eftir fimm ár í námi erlendis hefur þessi spurning enn og aftur legið mér á hjarta undanfarnar vikur og því fannst mér tilvalið að skoða hana hér áður en að flutningunum kemur.

    Einhverjir kannast eflaust við spurningavefinn Quora en fyrir þá sem ekki gera það kemur hér stutt kynning. Quora er sem sagt vefsíða þar sem milljónir notenda koma saman til að spyrja og svara spurningum um allt milli himins og jarðar. Að einhverju leyti má segja að Quora sé sambland af Wikipedia, Google og Reddit. Ef þú hefur spurningu sem ekki má finna svarið við með Google-leit er hægt að smella sér inn á Quora og spyrja þar. Að öllum líkindum mun annar notandi reyna að svara spurningunni en svarið getur verið allt frá einu orði yfir í nokkurra blaðsíðna ritgerð. Quora snýst sem sagt um að gefa notendum tækifæri á að spyrja spurninga og/eða nýta þekkingu sína til að svara spurningum frá öðrum notendum, frá öllum heimshornum um allskonar viðfangsefni.

    quora

    Á síðasta ári bjó ég mér til aðgang að þessari forlátu síðu en í upphafi notaði ég hana lítið sem ekkert. Eftir því sem á leið fór ég þó að skoða meira og meira og loks fyllti ég út persónlegan prófíl, þar sem meðal annars kom fram hverju mér finndist ég hafa næga þekkingu á til að svara spurningum annarra notenda. Þá leið ekki á löngu þar til ég fékk skilaboð þess efnis að spurning hefði borist sem mögulegt væri að ég gæti svarað. Spurningin hljóðaði svo: “What is the hardest thing about being a foreign student abroad?” og stuttu seinna barst önnur: “What is the most difficult thing while studying abroad?” Sem sagt, hvað er erfiðast við að vera vera í námi erlendis?

    Ég ákvað að svara þessum spurningum því það vill svo til að ég hef heldur marktæka reynslu af námi erlendis og því ýmis svör við þessari spurningu. Það sem mér fannst erfiðast við að svara var að það er svo margt við þetta sem fer eftir aðstæðum. Svarið mitt má lesa hér en vegna þess að viðfangsefnið er mér svo mikilvægt og af því að nú þegar nær dregur flutningum er þetta ofarlega í huga, ákvað ég að endurtaka svarið í aðeins persónulegri pistli hér fyrir neðan.

    Að vera í námi erlendis getur þýtt svo margt. Til að mynda er hægt aðfara til útlanda á ýmsum stigum náms (menntaskóli, grunnnám, framhaldsnám) og eins er hægt að fara í fullt nám og/eða skiptinám erlendis.

    Ævintýraþorstinn í mér kviknaði að vissu leyti þegar ég fékk í fyrsta skipti kynningu frá skiptinemasamtökunum AFS um möguleikann á því að fara í skiptinám í framhaldsskóla. Ég man ekki hvort það var í Lindaskóla eða í Versló að ég fékk þessa kynningu en ég man vel eftir eftirvæntingunni þegar ég hafði sannfært mömmu um hugmyndina og sent umsókn til AFS um að fá að dvelja í ár í Ekvador! Draumurinn varð að veruleika og án þess að tala orð í spænsku hélt ég af stað áleiðis til Guayaquil þar sem ég kynntist gjörólíkri menningu, lærði tungumál frá grunni og upplifði margt og mikið sem ég annars ekki hefði gert. Ég var heppin með fósturfjölskyldu og eignaðist við þetta ævintýri fjölskyldu og vini sem skipta mig miklu máli í dag. En það sem mér enn í dag finnst eiginlega ótrúlegast er hversu mikið skiptinemaárið mótaði mig og hafði áhrif á árin sem koma skyldu.

    10399661_60013426824_8716_n
    Á flugvellinum í Guayaquil í ágúst 2007, þar sem ég hitti fósturfjölskylduna í fyrsta skipti.

    Ári eftir að ég kláraði Versló lá leiðin nefnilega til Kaupmannahafnar þar sem ég hef meira og minna búið síðan, eða í um 5 ár. Ég hóf grunnnám við Copenhagen Business School, fór í skiptinám til Spánar í eina önn, kom til baka til Kaupmannahafnar, lauk grunnnámi, hóf meistaranám við CBS, fór í skiptinám til Ítalíu, starfsnám til Englands og svo aftur til Kaupmannhafnar. Við öll þessi ferðalög og flutninga lærði ég margt um sjálfa mig og fólkið í kringum mig, um mikilvægi þess að geta verið sjálfum sér nógur og um erfiðleikana sem geta fylgt því að stunda nám erlendis á þessum þremur stigum menntunar og aldurs.

    Og hvað er þá erfiðast við að vera í námi erlendis? Óháð menntastigi og lengd dvalar er svarið mitt fyrst og fremst tengt fólki. Að hitta fólk, kynnast fólki, tungumálaörðugleikar í samskiptum við fólk, að tala við fólk með mismunandi bakgrunn og skoðanir, eignast vini, missa vini og að sakna fólks. Ég hef staðið sjálfa mig að því að hringja í aðstandendur án ástæðu eða umræðuefnis, bara til að heyra röddina í þeim. Ég hef keypt flugmiða heim með dags fyrirvara, því ég einfaldlega gat ekki meira og mig vantaði fólkið mitt. Ég hef misst af afmælum, skírnum, brúðkaupum, jarðaförum og allskonar samkomum vegna þess að ég var í öðru landi og gat ekki komið. Ég hef ekki tölu á skiptunum sem mér hefur liðið eins og ég sé að missa af einhverju, verið með samviskubit af því ég komst í afmæli hjá þessum og ekki hinum eða liðið eins og ég sé að missa vináttur og tengsl vegna þess að ég bý í öðru landi.

    En aðrir þættir geta þó líka reynst erfiðir

    1. Menningaráfall og að tala ekki tungumálið. Enska er ekki mikið töluð í Ekvador (eða var það allavega ekki 2007). Þar af leiðandi gat ég átt lítil sem engin munnleg samskipti við meirihluta vina og aðstandenda fyrstu mánuðina í Ekvador. Ég leit líka ansi öðruvísi út en margir af þeim og skildi ekki alltaf þeirra hugsunarhátt. Ég var mjög lánsöm að lenda hjá yndislegri fósturfjölskyldu sem studdi mig og hjálpaði til við spænskunámið og við að venja mig við lífið í Ekvador en að sama skapi leið mér allan tímann örlítið utanveltu.
    2. Óvænt menningaráfall og að venjast “daglegu lífi” erlendis. Þar sem ég var bara að fara til Danmerkur bjóst ég ekki við öðru menningaráfalli en eftir því sem tíminn leið fór ég að taka eftir fleiri og fleiri smáatriðum sem eru ólík milli Dana og Íslendinga. Í upphafi var þetta þó allt spennandi og gaman, ég var nýflutt að heiman alla leið til útlanda og réð mér algjörlega sjálf. En svo allt í einu varð þetta bara orðið lífið og ég komin með mínar daglegu rútínur. Ljóminn við að búa erlendis byrjaði að dofna og lífið hélt áfram sinn vanagang, bara án fjölskyldunnar og vinanna sem urðu eftir á Íslandi.
    3. Að kynnast ekki fólki. Áður en ég fór í skiptinámið til Valencia höfðum ég og sambýliskonur mínar þrjár ákveðið að halda okkur frá hinum skiptinemunum því okkur langaði að kynnast heimamönnum og menningu þeirra. Þetta reyndist ansi erfitt því Spánverjarnir í skólanum lifðu bara sínu lífi og höfðu takmarkaðan áhuga á að leggja tíma og fyrirhöfn í að kynnast fólki sem var hvort eð er farið eftir fjóra mánuði. Svo að í staðinn enduðum við að miklu leiti án samskipta við bæði heimamenn og aðra skiptinema.
    4. Svo er það þetta með að fara aftur heim. Þegar þetta er allt búið er komið að heimför og það þýðir jú kveðjustund. Eftir mislukkaða planið í Valencia fór ég til Mílanó með annað hugarfar. Þar ætlaði ég að kynnast skiptinemum og gera sem allra mest úr því sem við áttum sameiginlegt. Ég endaði í hópi sem samanstóð að mestu leyti af öðrum Norðurlandabúum. Við hugsum og högum okkur á svipaðan hátt og vildum öll gera sem mest úr dvölinni á Ítalíu. Skemmta okkur, fara í ferðalög, og fleira. Það var allt frábært. Þar til að var búið.
    12390851_10153321534133693_167017390665612837_n
    Síðasta kvöldmáltíðin í Mílanó með Skandínavíska vinahópnum

    Nú er aftur komið að kveðjustund. Á sama tíma og ég er rosalega spennt fyrir Íslandi er ótrúlega erfitt að kveðja Kaupmannahöfn. Að búa aftur á Íslandi þýðir meiri umgengni við fjölskylduna mína og gamla og góða vini en það þýðir líka minni umgengni við nýja og kæra vini. Að flytja til Íslands þýðir að ég tala tungumálið reiprennandi og að ég þekki betur til vissra þátta í viðskipta- og mannlífinu. En það þýðir líka að ég þekki verr til annarra þátta og á tímum getur það leitt til erfiðleika með að tjá mig um nám og fyrri störf, þar sem ég er vön að gera það á ensku. Síðustu fimm ár hafa verið frábær. Lærningsrík, skemmtileg, spennandi og óvænt. Ég hef kynnst yndislegu fólki, borgum og menningum, lært margt og mikið og öðlast reynslu sem mun fylgja mér til æviloka. Ég er líka betri, öruggari og skilningsríkari einstaklingur fyrir vikið en þrátt fyrir allt þetta hef ég efast um ákvörðunina sem ég tók fyrir 10 árum þegar umsóknarferlið fyrir skiptinám með AFS hófst. Ég hef líka efast um ákvörðunina sem ég tók þegar ég hélt til Kaupmannhafnar í háskólanám. Ég hef misst vini og tengsl. Ég hef misst af mikilvægum samkomum og viðburðum. Ég hef misst af uppvexti bræðrabarnanna minna sem eru allt í einu öll orðin hálf fullorðin. Ég hef misst af kveðjustundum við fráfallna ættingja og vini og svo mörgu öðru.

    Þetta er tilfinning sem enginn nema þeir sem hafa prófað geta skilið. Ég get ekki útskýrt hana. Á sama tíma og ég er þakklát fyrir tækifærin sem mér hafa gefist og fólkið sem ég hef kynnst er ég leið yfir tækifærunum og fólkinu sem ég hef misst af því að ég flutti út. Tengslanetið mitt er til að mynda minna og dreifðara en ef ég hefði búið á Íslandi og því gæti reynst mér flóknara að finna vinnu við hæfi. En fyrst og fremst er ég ánægð að ég lét verða af þessu, ánægð að ég hafði kjarkinn og styrkinn til að flytja fyrst til Danmerkur og svo til Spánar, Ítalíu og Englands. Ég er þakklát fyrir útkomuna sem allar þessar litlu ákvarðanir leiddu til og fyrir fólkið sem hefur verið hluti af ferðinni. Ég er líka gríðarlega stolt af þeim árangri sem ég hef náð og reynslunni sem ég hef sankað að mér. Ég hlakka mjög mikið til að flytja til Íslands, að búa nálægt fólkinu þar sem ég elska og hef saknað í fimm ár. Ég á auðvitað eftir að sakna Kaupmannahafnar en sem betur fer er ekki svo langt að fara, svo heimsóknirnar verða vonandi reglulegar.

    055
    Yndisleg ferð til Bornholm sem ég fór með danska vinahópnum sumarið 2015

    Ég er allavega tilbúin í næsta kafla. Búsetu og vonandi áhugaverða vinnu á Íslandinu mínu. Ferðalög um Ísland, sumarbústaðaferðir, útilegur, ís, útisundlaugar, (alvöru) lakkrís, lambakjöt, harðfiskur, ýsa, þorrablót, bolludagur, sprengidagur, 17. júní, 1. desember, alvöru snjór, ömurlegt veður, íslenskar sumarnætur, kórstelpurnar, bræðrabörnin, bræðurnir, mágkonurnar, afar og ömmur, mamma, stórfjölskylda, vinir, íslensk tunga og allt hitt.

    Landið okkar hefur upp á svo margt að bjóða og ég get ekki beðið eftir að upplifa allt sem ég hef saknað og uppgötva nýtt! Ísland, við sjáumst 7. ágúst!

     

  • Alveg að koma að’essu!

    Alveg að koma að’essu!

    Í dag vann ég síðasta vinnudaginn minn í 3D Print Scandinavia og tilfinningin sem fylgdi var skrýtin. Síðasti vinnudagurinn var fyrsta skrefið í átt að flutningunum, því eftir bara þrjár vikur legg ég land undir fót í enn eitt skiptið og tek stefnuna heim á leið eftir fimm ára búsetu erlendis.

    Á morgun liggur leiðin enn og aftur til Mílanó! Þetta verður síðasta heimsóknin þangað tengd háskólanáminu því á mánudaginn ver ég meistaraverkefnið mitt og lýk þar með tvöfaldri meistaragráðu í stjórnun og fjármálum fyrir skapandi verkferla og fyrirtæki! Það er annað skrefið í átt að flutningum… Vörnin er skemmtilega ólík því sem tíðkast í Danmörku, því í stað 5 mínútna kynningar og 20 mínútna spurningatíma með tveimur prófdómurum, held ég 20 mínútna kynningu fyrir 10 manna prófnefnd og fæ svo nokkrar spurningar frá 2-3 af þeim í u.þ.b. 5-10 mínútur – alveg öfugt. Ég hlakka til að spreyta mig á þessu en að sjálfsögðu er stressið einnig til staðar. Þó veit ég að verkefnið mitt er gott, rannsóknin vel unnin og ég veit alveg hvað ég er að tala um, þ.e.a.s. ef þeir spyrja mig ekki of mikið út í aðferðafræðina…

    Screen Shot 2016-07-15 at 19.44.23

    Það sem skiptir þó mestu máli er auðvitað að eftir bara þrjá daga verð ég BÚIN með háskólanám!! Við tekur fimm daga frí á Ítalíu og í Frakklandi með mömmu, svo tveggja vikna lokadvöl í Kaupmannahöfn og loks flutningar. Og vá hvað ég hlakka til! Auðvitað hefur tíminn úti verið ómetanlegur og ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að gera þetta, fyrir allt sem ég hef lært og upplifað og fyrir þá óteljandi vini og kunningja sem ég hef eignast í gegnum árin. En hjartað hefur leitað heim, sérstaklega síðasta árið og í hugleiðingum mínum yfir þessu öllu saman leitaði hugurinn til þessa yndislega texta frá Stephan. G. Stephansyni sem best er þekkt við lag Sigvalda Kaldalóns:

    Þó þú langförull legðir
    sérhvert land undir fót,
    bera hugur og hjarta
    samt þíns heimalands mót,
    frænka eldfjalls og íshafs!
    sifji árfoss og hvers!
    dóttir langholts og lyngmós!
    sonur landvers og skers!

    Hér má heyra góða grallara flytja lagið í Ísafjarðarkirkju fyrir tveimur árum, en þetta var eitt af þeim sem alltaf voru tekin á ferðalögum bæði á Íslandi og erlendis, í flugvélum og rútum, á götuhornum og á tónleikum!

     

  • Myrkradansarinn / Dancer in the Dark

    Myrkradansarinn / Dancer in the Dark

    Í liðinni viku datt mér í hug í miðjum verkefnaskrifum að athuga hvort það væri eitthvað áhugavert í bíó. Ég fletti því upp dönsku síðunni Kino og fór að skoða! Mér til mikillar ánægju sá ég að ég myndi ná sýningu á Myrkradansaranum (Dancer in the Dark) það kvöldið í Cinemateket, kvikmyndahúsi sem rekið er af Det Danske Filminstitut.

    Ég hafði aldrei séð myndina en að sjálfsögðu heyrt af henni. Útgáfa hennar var jú enn eitt skiptið sem Björk Guðmundsdóttir fyllti Íslendingshjartað stolti enda lék hún bæði aðalhlutverkið og samdi tónlistina! Ekki bara það, því myndin sló í gegn á Cannes þar sem Björk vann verðlaun fyrir leik og Lars von Trier hlaut Gyllta Pálmann. Svo var Björk líka tilnefnd til Golden Globe fyrir leik og til Óskarsverðlaunanna og Golden Globe (ásamt Lars von Trier og Sjón) fyrir lagið ‘I’ve seen it all’.

    En það er þó ekki eina ástæðan fyrir því að ég þekkti til myndarinnar því í upphafi meistaranámsins í CBS fengum við að heyra sögu um samstarf Bjarkar og Lars von Trier, leikstjóra myndarinnar. Þó ég viti lítið um sannleiksgildi sögunnar birtist hún einnig í bók um líf og störf Lars von Trier, sem kom út árið 2010, svo ætla má að eitthvað sé til í henni. Frásögninni í einum af fyrstu tímunum í meistaranáminu var þá ætlað að gefa okkur hugmynd um hversu erfitt það getur verið að vinna með skapandi fólki og ekki síst frægum primadonnum (eins og kennarinn orðaði það) enda endar sagan þannig að eftir þrjá daga í röð þar sem Björk aflýsti komu sinni í tökur, af því hún “var ekki í stuði til að leika” (skv. von Trier), ákvað Lars að aflýsa tökum á fjórða deginum til að hefna sín. Sú ákvörðun á að hafa kostað framleiðsluna um 800 þúsund danskar krónur eða um 8 milljónir íslenskar krónur (á þeim tíma). Hafandi unnið með Björk á Biophilia túrnum á ég að vísu erfitt með að trúa að um slíka prímadonnustæla hafi verið að ræða og satt best að segja hefur hlið Bjarkar aldrei komið fram. En það er allavega ljóst að samstarfið hékk á bláþræði og hefur ekki verið endurtekið síðan.

    En að máli málanna, myndinni sjálfri. Áður hafði ég séð eina frá Lars von Trier, Hálfvitana. Eins hef ég lesið þó nokkuð um von Trier, samstarf hans við Peter Aalbæk Jensen og framleiðslufyrirtækið Zentropa í tengslum við námið, svo ég vissi nokkurn veginn við hverju mátti búast.

    Myrkradansarinn fylgir að einhverju leyti reglum Dogme 95 stefnunnar en þó ekki öllum og telst hún því ekki Dogme mynd. Myndin fylgir eftir Selmu (Björk), ungri konu frá Tékkóslóvakíu sem komin er til Bandaríkjanna ásamt syni sínum í von um betra líf. Bandaríkin er þó ekki eins og hún hafði átt von á og því á Selma erfiðara uppdráttar en hún hafði búist við. Myndin er hjartnæm og veitir áhorfendum innsýn í líf Selmu, bæði það góða og það slæma. Ég hló, grét, fagnaði og reiddist á þessum tveimur tímum sem myndin varði og var í raun ótrúlega snortin eftir áhorfið!

    Svo er það tónlistin. Selma á nefnilega til að detta inn í dagdrauma þar sem hún notar takt og hljóð í umhverfi sínu til að búa til lag. Tónlist spilar því mikilvægt hlutverk í myndinni en er þó eingöngu til staðar þegar Selmu byrjar að dreyma. Engin tónlist, tilfallandi eða annarskonar, fylgir öðrum atriðum en dagdraumum Selmu. Að mínu mati skapaði þetta ákveðið mótvægi og gerði tónlistina ennþá áhrifaríkari. Eins var það á vissan hátt mjög áhrifaríkt að hafa enga tilfallandi tónlist, eða innskotstónlist, sem í flestum kvikmyndum er notuð í bakgrunni til að skapa eða viðhalda ákveðinni stemmingu.

    Myrkradansarinn fékk mig því enn og aftur til að hugsa um áhrif tónlistar í kvikmyndum. Þá pældi ég í því hvort tónlistarleysið í Myrkradansaranum hefði sömu áhrif á mig ef ekki værir fyrir þá staðreynd að í flestum kvikmyndum er tónlist einmitt notuð til að upphefja myndina.Í flestum myndum er áhorfandinn á einhvern hátt leiddur í gegnum atburðarás með tilfallandi tónlist. Okkur er sagt hvenær við eigum að vera spennt, hrædd eða sorgmædd, taugarnar eru kitlaðar fram að því þegar morðinginn birtist í herberginu. Tónlist hefur með öðrum orðum mikil áhrif á upplifun okkar af því sem fram fer á skjánum, eins og sjá má í myndbandi hér að neðan.

     

    Ég mun líklega halda áfram að velta mér upp úr þessum hlutum næstu mánuði og ár. Eftir að ég hóf rannsóknarvinnuna fyrir meistaraverkefnið mitt er þetta í huga mér í hvert skipti sem ég horfi á kvikmyndir og sjónvarpsþætti og mismunandi tónlist og aðferðir kveikja hjá mér fleiri hugmyndir og pælingar. Það er því líklegt að bloggin um kvikmyndatónlist verði fleiri.

     

  • Ekki með neitt á þjóðvegi eitt

    Ekki með neitt á þjóðvegi eitt

    Síðustu þrjá mánuði hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgjast með og hjálpa örlítið til á síðustu metrunum við framleiðslu á heimildarmyndinni Ekki með neitt á þjóðvegi eitt eftir Bjarka Sigurjónsson. Myndin segir frá heldur óvenjulegi ferðalagi Bjarka hringinn í kringum Ísland en Bjarki fór ferðina án allra helstu nauðsynja og reiddi sig algjörlega á landsbyggðarbúa og ferðalanga til að komast á leiðarenda. Með hjálp bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna tókst Bjarka að ná markmiði sínu en ferðin tók alls sex daga með viðkomu á hinum ýmsu stöðum umhverfis Ísland.

    Vinskapur okkar Bjarka hófst líklega um leið og hægt er að segja að smábörn séu vinir en mæður okkar voru bestu vinkonur frá 10 ára aldri og því var ekki hjá því komist að við Bjarki eyddum miklum tíma saman á yngri árum. Þó að um tilneyddan vinskap hafi verið að ræða vorum við mestu mátar og minningarnar af góðum stundum eru óteljandi! Sumarbústaðaferðir, ferðalög um gjörvallt Ísland og kósý kvöld á Álfhólsveginum.

    bjarkierla1

    En eins og verða vill misstum við smám saman sambandið eftir því sem við urðum eldri og þegar ég fyrir tilviljun hitti Bjarka í desember síðastliðnum voru liðin allmörg ár frá síðasta skipti. Þá spjölluðum við um hitt og þetta og meðal annars sagði hann mér frá lokaverkefni sínu í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands, heimildarmyndinni Ekki með neitt á þjóðvegi eitt. Það leið ekki á löngu þar til ég hafði svo samband við Bjarka til að athuga hvort hann gæti mögulega nýtt krafta mína á einhvern hátt við það sem eftir var.

    Bjarki fékk hugmyndina að myndinni haustið 2014 og við tók tæpt ár af undirbúningsvinnu. Eins og stundum er með heimildarmyndir var að vísu á köflum flókið að undirbúa allt saman þar sem margt varðandi framvindu myndarinnar var ófyrirsjáanlegt og því til dæmis ógerlegt að skrifa eiginlegt handrit fyrir brottför. Þess í stað samanstóð handritið af punktum yfir mögulega atburði og samtöl og hugmyndum að því hvernig hægt væri að bregðast við aðstæðum. Það var svo í júní 2015 að Bjarki hélt af stað með fátt annað en tóman bakpoka sér til halds og trausts. Með honum í för var kvikmyndatökumaðurinn Halldór Óli en hann laut ekki sömu reglum og ferðaðist með nauðsynjar á borð við tjald, svefnpoka og pening.

    13131569_598122607009609_2915283192828202332_o

    Bjarki réðst sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur tók hann á sig að verða í senn leikstjóri, handritshöfundur, aðalpersóna, klippari, tónskáld og framleiðandi á myndinni sem telur 74 mínútur! Í upphafi var það markmið Bjarka að vinna allt sjálfur (utan myndatöku) og hélt hann í þá hugsjón þar til ljóst var að verkefnið hafði undið svo mikið upp á sig að um meira en lokaverkefni í meistaranámi var að ræða. Hann fékk því aðstoð við litvinnslu, tónlist, hljóðvinnslu, þýðingar og annað smotterí en myndin er þó án nokkurs efa að mestu leyti Bjarka!

    Úr varð áhugaverð og skemmtileg heimildarmynd sem sýnir í senn landslag, byggðarlag og náttúru á Íslandi og varpar ljósi á góðmennsku fólksins sem leggur Bjarka lið með ýmisskonar aðstoð. Ekki með neitt á þjóðvegi eitt verður frumsýnd með pompi og prakt á Heimilarmyndahátíðinni Skjaldborg núna um helgina 13.-16. maí en ég mun því miður missa af herlegheitunum sökum staðsetningar.

    Það hefur verið afar lærdómsríkt og gaman að fá að taka þátt í þessu verkefni, þó ekki nema um lokastigið hafi verið að ræða. Ég get í það minnsta fullyrt að áhugi minn á að vinna eða hjálpa til við önnur álíka verkefni hefur eingöngu aukist og ég vona að fyrirhugaðir flutningar til Íslands muni leiða til fleiri! En þangað til þarf ég víst að snúa mér aftur að ritgerðaskrifum!

  • Myndataka

    Myndataka

    Ég hef aldrei fílað að láta taka myndir af mér. Eins og með svo marga (held ég) finnst mér óþæginlegt að stilla mér upp og svo finnst mér útkoman yfirleitt ekki nógu góð. Þessi tilfinning var svo sterk að ég neitaði að fara til ljósmyndara bæði á fermingu og við útskrift úr Verzló. Ég gat þó sannfærst um að bræður mínir tækju nokkrar af mér og fjölskyldunni í tækifæri dagsins og þær komu svo bara nokkuð vel út, sem betur fer, og prýða nú veggi hjá öfum og ömmum og mömmu.

    útskrift2010
    Mamma og afkomendur hennar á útskriftinni minni úr Verzló í maí 2010!

    Nú þegar útskrift úr meistaranámi nálgast fannst mér þó að ég þyrfti að láta taka af mér almennilegar myndir. Sérstaklega vantaði mig góðar og faglegar myndir fyrir ferilskrána en svo langaði mig líka að eiga flottar og skemmtilegar myndir til að nota í öðrum tilgangi. Það vill svo vel til að náfrænka mágkonu minnar er ljósmyndarinn Tinna Stefánsdóttir. Tinna er snillingur á myndavélinni og segja má að hún sé orðin fjölskylduljósmyndari okkar Guðmundsbarna og -barnabarna. Síðustu 20 ár hefur hún tekið ófáar myndir af þeim og okkur, meðal annars þessa sem er í algjöru uppáhaldi og hefur fylgt mér á flakkinu síðustu ár!

    bræðrabörn

    ❤ Bræðrabörnin mín sex ❤

    Þegar kom að því að finna ljósmyndara fyrir sjálfa mig var valið því augljóst og sem betur fer var Tinna laus í myndatöku í einni Íslandsferðinni minni í mars sl. Ég mætti því til hennar í stúdíóið þar sem hún smellti og smellti og sagði mér til um hvert ég ætti að horfa og hvenær ég ætti að brosa. Ég reyndi að stilla mér upp eftir bestu getu og daginn eftir hittumst við svo aftur í Kópavogsdalnum góða til að ná nokkrum útimyndum.

    Útkoman úr myndatökunum tveimur voru rúmlega 400 myndir, misgóðar auðvitað, og eftir langa íhugun og nokkrar umferðir tókst mér að velja um 20 sem Tinna fór svo í gegnum og lagaði til. Ég er sannarlega ánægð með niðurstöðuna, svo ánægð að mig langar mest að skella mér aftur í töku! Ég held að það yrði sérstaklega gaman að fá fleiri útimyndir á allskonar stöðum, bæði innanbæjar og í villtri náttúru Íslands. Landið okkar býður jú upp svo óendanlega marga og flotta möguleika til skemmtilegra myndataka, eins og ljóst er á öllum þeim ljósmyndurum sem leggja leið sína til Íslands sérstaklega til að taka myndir.

    Mér fannst skemmtilegra í tökunni en ég þorði að vona og ég held hreinlega að ég sé á góðri leið með að komast yfir vandræðaleikann við faglegar myndatökur! Ég held að allir ættu að prófa svona töku með ljósmyndara sem er til í að gefa manni tíma til að slappa af og losna við stressið sem oft fylgir. Það er svo dýrmætt að sjá sjálfa(n) sig í góðu ljósi og fallegar og vel unnar ljósmyndir geta svo sannarlega hjálpað til við það!

    Takk fyrir mig, Tinna!

     

     

     

  • Hrútar / Rams

    Hrútar / Rams

    Í síðustu viku lagði ég loksins leið mína í bíó hérna í Cambridge til að sjá Hrúta. Mér fannst einstaklega gaman að upplifa myndina í öðru landi, með enskum texta og umkringd fólki af öðru þjóðerni. Sem ein af þeim sem kvartar reglulega vegna þýðinga á enskum myndum yfir á íslenskan texta, get ég staðfest að merking málsins tapast líka við þýðingu frá íslensku yfir á enskan texta.

    Eins og flestir landsmenn vita er Grímur Hákonarsson bæði handritshöfundur og leikstjóri Hrúta, sem er önnur mynd hans í fullri lengd. Hrútar var frumsýnd 15. maí 2015 í Un Certain Regard hlutanum af Cannes hátíðinni, þar sem hún hlaut einmitt fyrstu verðlaun. Síðan er liðið ár og Hrútar hafa sankað að sér helling af verðlaunum og tilnefningum, svo ekki sé minnst á óragrúann af jákvæðum ummælum erlendra sem íslenskra blaðamanna og áhorfenda.

    Fyrir þá sem ekki hafa séð myndina fjallar hún um tvo sauðfjárbændur í afskekktum dal á Norðurlandi. Þrátt fyrir að vera nágrannar og bræður hafa þeir Gummi (Sigurður Sigurjónsson) og Kiddi (Theódór Júlíusson) ekki talast við í um fjóra áratugi þegar fjárstofni þeirra er ógnað vegna riðuveiki.

    Atli Örvarsson á heiðurinn af tónlistinni í Hrútum og var hann tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir verkið. Atli hefur áður samið tónlist fyrir fjölmargar kvikmyndir og sjónvarpsþætti, þar á meðal The Eagle frá Kevin Macdonald og Babylon A.D. frá Mathieu Kassovitz. Tónlistin í Hrútum er einstaklega viðeigandi og passar vel við bæði landslag og söguþráð, þar sem hún dregur fram tilfinningar áhorfandans gagnvart kringumstæðum. Erlendir gagnrýnendur hafa gefið Atla mikið lof og einn þeirra kallaði tónlistina í Hrútum “exquisitely haunting” (The Upcoming):

    “Linking the various elements of a gripping plot, and the extraordinary shots captured by Icelandic director Grímur Hakonarson, is Atli Örvarsson’s exquisitely haunting music. His melodies have the power to elicit a devastating emotional response, and linger long after the last frame has faded into the end credits.”

    Það sem sérstaklega fangaði athygli mína var þó bara gamalt og klassískt íslensk jólalag. Eins og með svo mörg af okkar allra flottustu jólalögum er þetta íslenskuð útgáfa af erlendu (ójóla)lagi. Upprunalega lagið heitir Oh Susana og er eftir bandaríska lagasmiðinn Stephen G. Foster, en íslenski textinn eftir Ragnar Jóhannesson. Ljóðið ber heitið ‘Aðfangadagskvöld’ en lagið er þó betur þekkt sem ‘Nú er Gunna á nýju skónum’. Þetta er jólalag sem óspart er spilað í útvarpi og á öllum jólaskemmtunum ár eftir ár og hefur verið síðustu 20 ár. Við kunnum það öll og raulum reglulega með, fólkinu í kringum okkur til mismikillar ánægju!

    Atriðið sjálft er ekki aðgengilegt á netinu svo ég ætla að reyna að lýsa því. Gummi er í eldhúsinu að hlusta á útvarpið og elda mat. Í útvarpinu má heyra söguna um Gunnu og nýju skóna og Gummi raular að sjálfsögðu með á sama tíma og hann undirbýr lambalærið fyrir ofninn. Hérna eru tveir hlutir svo ótrúlega íslenskir að ég komst ekki hjá því að pæla í því hvernig menningararfur spilar inn í kvikmyndagerð og sérstaklega hversu mikil áhrif svona lítill tónlistarbútur getur haft á skilning okkar á atriðinu. Lambalæri er ekki þekkt sem góðgæti á mörgum stöðum í heiminum og er enn síður tengt við jólahald utan Íslands. Í dag er lambalæri oftar á borðum en á jólum en með Gunnu og Sigga í eyrunum koma þessi tvö atriði því ótvírætt til skila til íslenskra áhorfenda að jólin eru komin. Þetta atriði er það fyrsta sem gefur jólatíðina til kynna, en utan lambalærisins og tónlistarinnar er ekki mikið annað sem lætur í ljós um hvaða árstíð er að ræða. Fyrir okkur sem ólumst upp á Íslandi er það deginum ljósara að jólin eru komin en ég er forvitin að vita hvort atriðið hefur sömu áhrif á þá og þær sem ekki þekkir lagið eða þekkir það sem Oh Susana og kannast ekki við réttinn sem Gummi er að matreiða.

    Það líður að vísu ekki á löngu þar til önnur merki um jólahald birtast, svo þetta breytir litlu varðandi framvindu sögunnar og skilning áhorfandands á henni. En engu að síður fannst mér þetta áhugaverð birtingarmynd á því hvernig lítill tónlistarbútur getur á einfaldan hátt hjálpað okkur að átta okkur á kringumstæðum og andrúmslofti í kvikmyndum.


     

    Last week I finally made my way to the cinema here in Cambridge to see the Icelandic film Rams. It was particularly fun to experience this film in another country, with English subtitles and surrounded by non-Icelandic people. As one who occasionally complains about translation of English-language films to Icelandic subtitles, I can safely say that meaning is also lost when Icelandic is translated to English.

    Grímur Hákonarsson is both writer and director of Rams, which is his second feature. The film premiered on May 15 in last year’s Un Certain Regard section at the Cannes Festival, where it also won the top prize. Since its premier, Rams has been a recipient of a number of positive reviews and nominations, most recently 13 nominations for the Icelandic Edda Awards (to be awarded on February 28).

    Rams tells the story of two estranged brothers, Gummi (Sigurður Sigurjónsson) and Kiddi (Theódór Júlíusson), and their sheep-stock in a remote valley in Iceland. An illness among the sheep leads to a sad turn of events as the county vet decides they all have to be killed to properly eliminate the disease.

    The score is written by Atli Örvarson, and he is nominated for an Edda Award for Best Music for his music for this film. Atli’s previous work includes features such as Kevin Macdonald’s The Eagle and Mathieu Kassovitz’ Babylon A.D., as well as a number of other films and TV series. His work in Rams is brilliantly in tune with the landscape and storyline, described as “exquisitely haunting” in a review from The Upcoming:

    “Linking the various elements of a gripping plot, and the extraordinary shots captured by Icelandic director Grímur Hakonarson, is Atli Örvarsson’s exquisitely haunting music. His melodies have the power to elicit a devastating emotional response, and linger long after the last frame has faded into the end credits.”

    But what really caught my attention in terms of music was a classic Icelandic Christmas carol. As with much of the traditional Icelandic Christmas music, this carol is a remake of another non-Icelandic song. The tune is taken from Oh Susana by American songwriter Stephen C. Foster, but its Icelandic version is set to lyrics by Ragnar Jóhannesson. The Icelandic carol is titled Christmas Eve, but it is commonly referred to as “Nú er Gunna á nýju skónum” (English: Now Gunna is wearing the new shoes). It is a tale of a typical Christmas Eve: dressing up, cooking Christmas dinner, listening to Christmas mass on the radio, opening presents and enjoying the lights. It is played relentlessly every Christmas in Iceland, and has been since the mid-20th Century, so naturally everybody can hum along during the festivities.

    I couldn’t find this scene online, so I’ll try to describe it. It shows Gummi in his kitchen, listening to the radio and cooking. As he hums along to the carol, he prepares a leg of lamb in the oven, a typical Icelandic dish traditionally served on Christmas Eve (especially a few decades ago, when Gummi and Kiddi would have been growing up). The scene is the first to indicate that Christmas season has arrived, but apart from the music and the food, not much points to the time of year. For us who grew up in Iceland it is thoroughly obvious (with music and food), but I wonder if it has the same effect on those who aren’t familiar with Icelandic traditions and either know the song as Foster’s Oh Susana, or do not know it at all?

    Other signs of Christmas appear shortly thereafter, so it doesn’t change anything regarding the audience’s understanding of the storyline. But I found it a fun and interesting manifestation of how a small piece of music helps audience to capture the circumstances and atmosphere in a film.