Category: Persónlegt

  • Ísland, góða Ísland!

    Ísland, góða Ísland!

    Ég er komin heim! Og ekki bara í viku eða tíu daga í þetta skiptið. Ég er flutt heim!

    Síðasta laugardag var kveðjupartí mér til heiðurs í Kaupmannahöfn. Nánustu vinirnir höfðu planað kvöldið og ég átti bara að mæta á veitingastaðinn klukkan 19. Kvöldið var frábært! Góður matur og góður félagsskapur en auðvitað blendar tilfinningar að vera að yfirgefa Kaupmannahöfn og allt þetta góða fólk.

    Sunnudaginn 7. ágúst hélt ég svo af stað út á Kastrup með fjórar ferðatöskur, stóran pappakassa og handfarangurstösku með í för. Sem betur fer gat ég fengið vini mína í Kaupmannahöfn til að fylgja mér út á völl með allt þetta hafurtask og á Leifstöð tóku Óli bróðir og mamma á móti mér.

    Síðan þá hef ég svo verið að snúast í skráningar- og atvinnumálum en auðvitað hef ég einnig fundið tíma til að sjá afa og ömmur, bræður og börn og svo tókst mér á þessum fjórum dögum sem liðnir eru að fara í báða fjölskyldusumarbústaðina, Hrafnabjörg og Mosgerði. Annar þeirra er í eigu föðurfjölskyldunnar og hinn í eigu móðurfjölskyldunnar en ég eyddi dágóðum tíma í báðum á mínum yngri árum. Síðustu fimm ár hef ég þó ekki getað verið þar neitt svakalega mikið og því voru þetta ákaflega kærar heimsóknir!

    20160808_205939
    Heimir frændi fyrir ofan Hrafnabjörg. Yndislegt útsýni yfir Silungatjörn.

    Næst á dagskrá er allsherjar atvinnuleit. Ég er komin hægt og rólega af stað en framundan eru eflaust óteljandi tölvupóstar, umsóknir, símtöl og vonandi nokkur viðtöl. Ég er á þessum “skemmtilega” stað í starfsferli mínum að vera vel menntuð en með litla reynslu úr atvinnulífinu. Það þýðir að þó að ég sé vel í stakk búin til að takast á við ýmiskonar störf er ég að vissu leyti áhættumeiri ráðning en þeir reynslumeiri þar sem það mun líklega taka mig svolitla stund að umbreyta menntun í framkvæmd. Ég vil samt meina að hver sá sem á endanum tekur sénsinn á mér muni alls ekki sjá eftir því þar sem að ég hef mikla og góða þekkingu sem mun nýtast vel í starfi. Svo er ég auðvitað líka metnaðargjörn og tilbúin að takast á við allskonar verkefni og störf, svo lengi sem ég get lært eitthvað af þeim!

    Allavega er ferilskráin nú uppfærð og skjal sem útskýrir hvernig menntun og fyrri störf hafa gert mig að góðum starfskrafti fyrir verkefnavinnu í skapandi greinum er í bígerð. Það skjal mun örugglega rata hingað inn þegar það er tilbúið en í bili held ég ótrauð áfram að skoða atvinnuauglýsingar mörgum sinnum á dag!

     

  • Alveg að koma að’essu!

    Alveg að koma að’essu!

    Í dag vann ég síðasta vinnudaginn minn í 3D Print Scandinavia og tilfinningin sem fylgdi var skrýtin. Síðasti vinnudagurinn var fyrsta skrefið í átt að flutningunum, því eftir bara þrjár vikur legg ég land undir fót í enn eitt skiptið og tek stefnuna heim á leið eftir fimm ára búsetu erlendis.

    Á morgun liggur leiðin enn og aftur til Mílanó! Þetta verður síðasta heimsóknin þangað tengd háskólanáminu því á mánudaginn ver ég meistaraverkefnið mitt og lýk þar með tvöfaldri meistaragráðu í stjórnun og fjármálum fyrir skapandi verkferla og fyrirtæki! Það er annað skrefið í átt að flutningum… Vörnin er skemmtilega ólík því sem tíðkast í Danmörku, því í stað 5 mínútna kynningar og 20 mínútna spurningatíma með tveimur prófdómurum, held ég 20 mínútna kynningu fyrir 10 manna prófnefnd og fæ svo nokkrar spurningar frá 2-3 af þeim í u.þ.b. 5-10 mínútur – alveg öfugt. Ég hlakka til að spreyta mig á þessu en að sjálfsögðu er stressið einnig til staðar. Þó veit ég að verkefnið mitt er gott, rannsóknin vel unnin og ég veit alveg hvað ég er að tala um, þ.e.a.s. ef þeir spyrja mig ekki of mikið út í aðferðafræðina…

    Screen Shot 2016-07-15 at 19.44.23

    Það sem skiptir þó mestu máli er auðvitað að eftir bara þrjá daga verð ég BÚIN með háskólanám!! Við tekur fimm daga frí á Ítalíu og í Frakklandi með mömmu, svo tveggja vikna lokadvöl í Kaupmannahöfn og loks flutningar. Og vá hvað ég hlakka til! Auðvitað hefur tíminn úti verið ómetanlegur og ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að gera þetta, fyrir allt sem ég hef lært og upplifað og fyrir þá óteljandi vini og kunningja sem ég hef eignast í gegnum árin. En hjartað hefur leitað heim, sérstaklega síðasta árið og í hugleiðingum mínum yfir þessu öllu saman leitaði hugurinn til þessa yndislega texta frá Stephan. G. Stephansyni sem best er þekkt við lag Sigvalda Kaldalóns:

    Þó þú langförull legðir
    sérhvert land undir fót,
    bera hugur og hjarta
    samt þíns heimalands mót,
    frænka eldfjalls og íshafs!
    sifji árfoss og hvers!
    dóttir langholts og lyngmós!
    sonur landvers og skers!

    Hér má heyra góða grallara flytja lagið í Ísafjarðarkirkju fyrir tveimur árum, en þetta var eitt af þeim sem alltaf voru tekin á ferðalögum bæði á Íslandi og erlendis, í flugvélum og rútum, á götuhornum og á tónleikum!

     

  • Hvað verðurðu þegar þú útskrifast?

    Hvað verðurðu þegar þú útskrifast?

    Hvað verðurðu þegar þú útskrifast? Spurning spurninganna! Spurningin sem allir sem fara í þverfaglegt nám fá að heyra oft og mörgum sinnum yfir námstímann! Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef heyrt þessa eða álíka spurningar og aldrei hef ég greið svör á höndum. Hvað verð ég? Hvað verð ég eftir bara rétt rúman mánuð þegar ég lýk meistaranámi frá tveimur af virtustu viðskiptaháskólum í Evrópu? Tjah, ég verð vonandi skrefinu nær því að fá gott og áhugavert starf við hæfi.

    Þegar ég kláraði grunnnámið fyrir tveimur árum blasti sama spurning við. Þá lauk ég BSc í viðskiptum, tungumálum og menningu, öðru þverfaglegu námi með hálf óskiljanlegu heiti. Gegnum þriggja ára grunnnámið byggði ég upp ákveðinn orðaforða svo síðasta árið var svarið við spurningunni orðið skýrara (og mun styttra). Undir lokin var samtalið því einhvern veginn svona:

    Q: “Bíddu, viðskipti, tungumál og menning? Hvað verðuru eiginlega þegar þú klárar?”

    A: “Þetta er í rauninni svona blanda af alþjóðsamskiptum og viðskiptafræði og svo lærði ég spænsku”

    Flestir voru sáttir við svarið en þó virðist ótrúlega mörgum finnast eitthvað óþæginlegt við að geta ekki skilgreint háskólanám eftir starfsheiti:

    Q: “Nú já, verðuru þá viðskiptafræðingur?”

    A: “Nei, eða jú kannski. Ég veit það ekki. [Vandræðalegur hlátur.]”

    whenwegrowup

    Ef ég er ekki “straight up” viðskiptafræðingur, nú eða lögfræðingur eða læknir, hvað er ég þá? Viðskiptafræðingur er lögverndað starfsheiti á Íslandi og þar sem ég er í námi erlendis þarf ég að sækja um sérstakt leyfi til að mega kalla mig slíkan. Þar sem ég hef ekki sótt um leyfið (að minnsta kosti ennþá) get ég því ekki sagst vera viðskiptafræðingur og þar að auki finnst mér það heiti í rauninni ekki passa nógu vel við bakgrunninn minn. Jú, ég stunda nám við viðskiptaháskóla og hluti af grunnnáminu var vissulega að veita okkur góðan grunn í viðskiptafræði. En ekki ‘bara’ það og kannski ekki nóg af því.

    Svo er það meistaranámið. Ekki nóg með að um óskiljanlega og háfleyga titla sé að ræða heldur er ég einnig að ljúka tvöfalt meistaranám, þ.e.a.s. tvær meistargráður frá tveimur háskólum á tveimur árum. Stjórnun á skapandi verkferlum heitir önnur gráðan og Stjórnun og fjármál í listum, menningu, margmiðlun og afþreyingu heitir hin. Það er ekki nema von að fólk spyrji. Meira að segja nánasta fjölskylda mín og vinir eiga enn erfitt með að skilja hvað það er nákvæmlega sem ég er að læra, svo ég tali nú ekki um hvað ég verð þegar ég klára! Svo ég endurtaki fyrri orð vona ég auðvitað að það sem ég verð sé ‘skrefinu nær góðu starfi’ en ég þarf þó líklega að koma mér upp betri útskýringu til að geta átt möguleika á að landa því starfi.

    jobinterview

    Mögulegir atvinnuveitendur munu að öllum líkindum spyrja mig þessarar spurningar og því hef ég mikið hugsað um hvernig best er að útskýra á skýran, einfaldan og hnitmiðaðan hátt hvað felst í þessari menntun. Eitthvað hefur þó breyst með væntingar fólks til starfsheita (eða kannski gáfust bara allir upp á fyrri spurningunni) því “Hvað verðurðu þegar þú útskrifast?” hefur nú að vissu leyti vikið fyrir “Hvað geturðu gert þegar þú útskrifast?” sem er að öllu leyti góð þróun! Að finna eitt orð, eitt starfsheiti yfir menntunina mína er hreint út sagt ógerlegt! Að útskýra hvað ég get gert með hana er annað og auðveldara.

    Og hvað er það þá sem ég get gert þegar ég útskrifast. Það er ýmislegt. Undirbúningurinn felst ekki eingöngu í meistaranáminu heldur líka grunnnáminu og auðvitað allri reynslu sem ég hef aflað mér í gegnum fyrri störf, félagsstörf, sjálfboðaliðastörf og önnur verkefni. Ég er enn að þróa faglega lýsingu á náminu mínu fyrir vini, kunningja og mögulega vinnuveitendur. Líklega verður hún ekki fullunnin fyrr en eftir að minnsta kosti tíu ár, eftir að ég hef haft tækifæri til að átta mig betur á því hvernig þessi undirbúningur mun nýtast mér í því sem ég tek mér fyrir hendur. Svo í bili get ég í rauninni ekki svarað titilspurningu þessa bloggs:

    Q: “Hvað verðurðu svo þegar þú útskrifast?”

    A: “Það á eiginlega bara eftir að koma í ljós!”

  • Myndataka

    Myndataka

    Ég hef aldrei fílað að láta taka myndir af mér. Eins og með svo marga (held ég) finnst mér óþæginlegt að stilla mér upp og svo finnst mér útkoman yfirleitt ekki nógu góð. Þessi tilfinning var svo sterk að ég neitaði að fara til ljósmyndara bæði á fermingu og við útskrift úr Verzló. Ég gat þó sannfærst um að bræður mínir tækju nokkrar af mér og fjölskyldunni í tækifæri dagsins og þær komu svo bara nokkuð vel út, sem betur fer, og prýða nú veggi hjá öfum og ömmum og mömmu.

    útskrift2010
    Mamma og afkomendur hennar á útskriftinni minni úr Verzló í maí 2010!

    Nú þegar útskrift úr meistaranámi nálgast fannst mér þó að ég þyrfti að láta taka af mér almennilegar myndir. Sérstaklega vantaði mig góðar og faglegar myndir fyrir ferilskrána en svo langaði mig líka að eiga flottar og skemmtilegar myndir til að nota í öðrum tilgangi. Það vill svo vel til að náfrænka mágkonu minnar er ljósmyndarinn Tinna Stefánsdóttir. Tinna er snillingur á myndavélinni og segja má að hún sé orðin fjölskylduljósmyndari okkar Guðmundsbarna og -barnabarna. Síðustu 20 ár hefur hún tekið ófáar myndir af þeim og okkur, meðal annars þessa sem er í algjöru uppáhaldi og hefur fylgt mér á flakkinu síðustu ár!

    bræðrabörn

    ❤ Bræðrabörnin mín sex ❤

    Þegar kom að því að finna ljósmyndara fyrir sjálfa mig var valið því augljóst og sem betur fer var Tinna laus í myndatöku í einni Íslandsferðinni minni í mars sl. Ég mætti því til hennar í stúdíóið þar sem hún smellti og smellti og sagði mér til um hvert ég ætti að horfa og hvenær ég ætti að brosa. Ég reyndi að stilla mér upp eftir bestu getu og daginn eftir hittumst við svo aftur í Kópavogsdalnum góða til að ná nokkrum útimyndum.

    Útkoman úr myndatökunum tveimur voru rúmlega 400 myndir, misgóðar auðvitað, og eftir langa íhugun og nokkrar umferðir tókst mér að velja um 20 sem Tinna fór svo í gegnum og lagaði til. Ég er sannarlega ánægð með niðurstöðuna, svo ánægð að mig langar mest að skella mér aftur í töku! Ég held að það yrði sérstaklega gaman að fá fleiri útimyndir á allskonar stöðum, bæði innanbæjar og í villtri náttúru Íslands. Landið okkar býður jú upp svo óendanlega marga og flotta möguleika til skemmtilegra myndataka, eins og ljóst er á öllum þeim ljósmyndurum sem leggja leið sína til Íslands sérstaklega til að taka myndir.

    Mér fannst skemmtilegra í tökunni en ég þorði að vona og ég held hreinlega að ég sé á góðri leið með að komast yfir vandræðaleikann við faglegar myndatökur! Ég held að allir ættu að prófa svona töku með ljósmyndara sem er til í að gefa manni tíma til að slappa af og losna við stressið sem oft fylgir. Það er svo dýrmætt að sjá sjálfa(n) sig í góðu ljósi og fallegar og vel unnar ljósmyndir geta svo sannarlega hjálpað til við það!

    Takk fyrir mig, Tinna!